Umræðutorg III: Samstarfsverkefni tónlistarskóla

Umræðutorg III: Samstarfsverkefni tónlistarskóla

Kynnt verða fimm spennandi tilrauna- og þróunarverkefni í tónlistarskólum.

Rýnt verður í samstarfsverkefni tónlistarskóla innan skólakerfisins, hvers eðlis eru þau og hvaðan eru þau sprottin?

Umræðustjórnun:

Sigrún Grendal og Jóhann Ingi Benediktsson

Lækkum þröskuldinn: Samstarfsverkefni TSDK og Fellaskóla

Anna Hugadóttir

Verkefnið er framhald af öðru samstarfi skólanna og hófst haustið 2020. Markmið þess er að fjölga tónlistarnemum í Breiðholti með því að auðvelda aðgengi að gæða hljóðfæranámi og tryggja ástundun. Kennt er á fiðlu og píanó í einka- og hóptímum á skólatíma/frístund, 4-5 sinnum í viku. Tveir kennarar sinna fiðlukennslunni í teymisvinnu. Verkefnið hefur fjölgað nemendum af fjölbreyttum uppruna við TSDK og hefur kennslufyrirkomulagið reynst mjög vel.

Tónsmiðja í FÁ

Lilja Dögg Gunnarsdóttir

Kynning á tónsmiðju í FÁ. En markmið hennar eru m.a. að nemendur þjálfist í tónlistarsköpun og samspili, kynnist ólíkum tónlistarstílum, efli sviðsframkomu og efli trú sína á eigin færni og getu til að vaxa í samfélagi tónlistar og sköpunar. Lögð er rík áhersla á að vinna út frá getu og áhugasviði nemendahóps hverju sinni. Námið fer fram í smiðjum og er verklegt.

Bílskúrinn – þróunarverkefni

Heiðrún Hámundar

Bílskúrinn er verkefni sem í stuttu máli gengur út á að þróa einfaldar og nytsamlegar útsetningar á rokk/popplögum til æfinga. Unnið er með unglingahljómsveitum í Tónlistarvali og leitast er við að nota óformlegar náms- og kennsluaðferðir í tónlist. Afsprengi vinnunnar er vefsíða með lögum sem unglingarnir hafa valið, í einföldum útsetningum í aðgengilegri uppsetningu. Verkefnið hefur hlotið styrki frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands og Þróunarsjóði námsgagna.

Upptakturinn – tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna

Elfa Lilja Gísladóttir

Með Upptaktinum, Tónsköpunar verðlaunum barna og ungmenna, er ungu fólki gefið tækifæri til að senda inn tónsmíð eða drög að henni og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með fulltingi listnemenda og listamanna. Afrakstur þeirrar vinnu má sjá og heyra á tónleikum Upptaktsins í Hörpu á opnunardegi Barnamenningarhátíðar ár hvert þar sem atvinnuhljóðfæraleikarar leika tónverkin og ungmennin sitja á meðal áheyrenda.

Miðstöðin

– Ólafur Elíasson

Rytmadeildin gengur út á nám í rytmískri/popptónlist á forsendum nemenda. Í deildinni læra nemendur hljóðfæraleik á rytmísk hljóðfæri og flest allt sem þarf til að láta tónlistardrauma sína rætast. Þeir læra að spila í hljómsveitum, semja lög og útsetja, taka þau upp og hljóðvinna og koma tónlist sinni á framfæri. Þessu ferli stýra nemendur sjálfir og fá til þess bestu aðstoð sem hugsast getur og óheftan aðgang að fullkomnustu aðstæðum landsins til tónlistariðkunar; fyrsta flokks hljóðfærum, tækjum og búnaði. Kennt er á grundvelli aðalnámskrár í rytmískri tónlist.