Umræðutorg II: Nýbreytni í kennslu

Umræðutorg II: Nýbreytni í kennslu

Í umræðutorgi um nýbreytni í kennslu er skyggnst inn í mismunandi nálganir kennara í tónlistarkennslunni.

Flutt verða sex örerindi og í framhaldinu tekur við umræðutorg um málefnið. Hvaða hvati er að baki nýbreytniverkefnum og hver eru hin kennslufræðilegu sjónarmið?

Umræðustjórnun:

Sigrún Grendal og Jóhann Ingi Benediktsson

Tónakonfektmolar

– Ingunn Hildur Hauksdóttir

Mitt innlegg er að fjalla um nálgun í að laða fram spuna byrjenda. Í píanókennslu leitast ég við að efla spilagleði og opna hug og hjarta nemandans fyrir undraheimi tónlistarsköpunar. Í þeim skapandi leiðangri nota ég ýmsar aðferðir. Hér fjalla ég um „Tónakonfektmolana“. Ég mun ræða um aðferðafræðina og kennslufræðilegan grundvöll.

„Ef þessir nemendur myndu nú bara æfa sig“

Snorri Heimisson

Snorri Heimisson segir frá tilrauninni „mengjakennslu“. Markmið mengjakennslunnar er að koma til móts við þá þróun sem orðið hefur í samfélaginu með aukinni notkun á snjalltækjum og samfélagsmiðlum sem étur upp tíma nemenda okkar. Tími nemenda til heimaæfinga verður sífellt takmarkaðri. Hvað er til ráða?

Tónsmíðaskjóðan

Laufey Kristinsdóttir

Í innleggi mínu mun ég greina frá hugmyndafræði og markmiðum sem liggja til grundvallar því námsefni sem ég er að vinna að „Tónsmíðaskjóðan, Vinnubók 1 fyrir píanó“. Ég mun ræða um þá námslegu möguleika sem felast í skapandi vinnu og þær upplýsingar sem vinna nemandans getur gefið kennara. Skoða hvernig kennari getur á rannsóknarmiðaðan hátt nýtt tónsmíðar til að efla skilning nemandans á innri gerð tónlistar og færni allt frá fyrst tíma.

Það er Skrímsli undir rúminu þínu

Jón Hilmar Kárason

Skrímslið birtist öskrandi og eldspúandi þegar þú ætlar að gera eitthvað sem skiptir máli og það gerir allt til þess að fá þig til að hætta. Jón Hilmar kemur með nokkrar hugmyndir sem krefjast þess að þú takir fram brynjuna og sverðið og berjist upp á líf og dauða við Skrímslið undir rúmi.

Aðferðafræði lagasmíða

Sóley Stefánsdóttir

Skoðaðar nýjar aðferðir til tónsmíðasköpunar með það að markmiði að afhjúpa leiðir til að hlusta á, hugsa um og skapa tónlist. Áhersla er lögð á að þroska og efla nemendur í tónsmíðanálgun sinni en einnig að útvíkka þekkingu þeirra á jaðarpopptónlist samtímans.

Spunavélin

– Ingibjörg Fríða Helgadóttir

– Sigurður Ingi Einarsson

Spunavélin er yfirheiti skemmtilegra og lifandi tónlistarvinnusmiðja sem Sigurður Ingi og Ingibjörg Fríða hafa haldið og stýrt reglulega síðustu ár. Megináhersla Spunavélarinnar er að virkja þátttakendur, börn og fullorðna, í tónsköpun og tónlistarspuna. Spunavélin er alls ekki föst í skorðum heldur er hægt að aðlaga hana og breyta eftir ólíkum aðstæðum. Ávallt er þó unnið að því að fanga hugmyndir þátttakendanna í gegnum skapandi vinnu, sem síðar verða að mikilvægum efniviði á lokatónleikum.